Í dag er svokallaður seljandamarkaður, sem þýðir að það er betra að vera seljandi en kaupandi. Þetta hefur í för með sér að eftirspurn er mikil og það leiðir síðan til sífelldra hækkana.
Allt gott og blessað.
Þetta á sér hins vegar skuggahliðar.
Kaupendur hafa á tilfinningunni að hver eign sem þeir skoða sé síðasta eignin í bænum og það leiðir til fljótfærni, skyndiákvarðana og kann í versta falli að leiða til verulegs tjóns.
Og það leiðir okkur að spurningunni um hvort skylda eigi seljanda til að framvísa vottaðri ástandsskoðun áður en eign er seld?
Í fullkomnum heimi þyrfti þess ekki.
Hinn fullkomni fasteignasali ætti auðvelt með að sannfæra hinn fullkomna seljanda um að söluferlið taki lengri tíma af því að hinn fullkomni kaupandi verði að fá allar upplýsingar og tíma til að skoða eignina gaumgæfilega.
En við búum ekki í fullkomnum heimi.
Seljandi vill klára söluna sem fyrst, af því að það þarf að klára kaup á annarri eign í hvelli. Fasteignasalinn vill fá sölulaunin sín í hvelli og einbeita sér að næstu eign og kaupandi vill alls ekki eyða tíma í frekari skoðun því þetta er jú, síðasta eignin í bænum... eða þannig.
Þegar ástandið er svona ófullkomið, þá þurfa stundum að koma til skýrari leikreglur.
Nú er það þannig að löggjafinn er þegar með alls konar reglur um fasteignaviðskipti. Flestar vel meinandi til að verja hagsmuni kaupenda og seljenda en sumar skrýtnar til að verja staðnað ástand í rekstri fasteignasala. Okkur finnst því ekkert því til fyrirstöðu að taka aðeins til í þessum leikreglum og huga betur að hag neytandans, meðal annars með því að skylda seljanda til að framvísa ástandsskýrslu sem unnin væri af þar til bærum fagaðila.
Ef samhliða þessu yrðu teknar út samkeppnishamlandi reglur um til að mynda eignarhald á fasteignasölum, þá er allt eins líklegt að kostnaður seljanda myndi lækka eða í versta falli standa í stað.
Ástandsskoðun kostar til dæmis um það bil 100.000 kr. í dag og það væri fróðlegt að vita hvort gagnlegra væri að bjóða seljanda fría ástandsskoðun eða skylda hann til að styrkja einhverja að eigin vali um sömu fjárhæð.
Í okkar augum er svarið augljóst.