Hækkanir á fasteignamarkaði hafa verið talsvert umfram væntingar að undanförnu. Seðlabankinn hefur þegar hafið vaxtahækkunarferli og jafnframt gefið í skyn að til frekari aðgerða verði gripið til að sporna við bólumyndun á markaðnum.
Í kjölfarið hafa allir viðskiptabankarnir hækkað vexti á óverðtryggðum íbúðalánum.
Vextir á óverðtryggðum íbúðalánum með föstum vöxtum til þriggja ára miðað við hámarks veðsetningu eru í dag á bilinu 4,4% til 4,98% og verður að telja ólíklegt að þeir lækki á komandi misserum.
Stýrivextir Seðlabankans hafa að undanförnu verið í sögulegu lágmarki og bankinn hefur gefið sterklega í skyn að brugðist verði ákveðið við frekari hækkunum á fasteignaverði. Því má telja líklegt að vextir á óverðtryggðum lánum muni hækka frekar á næstunni.
Verður því að teljast álitlegt fyrir þau heimili sem eru fjármögnuð með óverðtryggðum lánum á breytilegum vöxtum, að þau tryggi sig til næstu þriggja ára með endurfjármögnun á föstum vöxtum.
Í dag eru breytilegir vextir að jafnaði um 1% lægri en vextir sem festir eru til þriggja ára. Hækkun á vaxtakostnaði heimila með óverðtryggt 30. mkr. lán til 30 ára er um 17.200 kr. ef vextir hækka um 1%.
Það getur því verið til mikils að vinna að tryggja vaxtakostnað til næstu þriggja ára þegar líkur á frekari vaxtahækkunum eru meiri en minni.