Procura - meira virði

Eiga tilboð í eign að vera sýnileg?

Eiga tilboð í eign að vera sýnileg?

Þetta er líklega eitt heitasta málefnið sem við ræðum við fasteignasala og við eigum satt best að segja mjög erfitt með að skilja núverandi hefðir og venjur þegar kemur að tilboði í fasteign.

Það þekkist víðast erlendis að um leið og tilboð er gert í eign, þá er það sýnilegt öllum. Aðrir áhugasamir kaupendur geta þá miðað sín tilboð við þegar fram komið tilboð og seljandi er þá viss um að besta boð hafi komið fram í eignina. Allir eru sáttir.

Hérlendis er hefðin hins vegar sú að fasteignasalar telja sér ekki heimilt að opinbera fram komið tilboð og hafa af því spunnist margar hjákátlegar uppákomur í tilboðsferlinu.

Það er rétt að skjóta því hér inn, að það er hvergi að finna í lögum, reglugerðum eða öðrum skrásettum gögnum ákvæði um að tilboð skuli vera leyndarmál.

Þetta er með öðrum orðum eins og með konuna sem sagaði lambahrygginn alltaf í tvennt án þess að vita ástæðuna, það hafði bara alltaf verið gert og hlaut því að vera uppskriftin. Upphafleg ástæða var hins vegar að einhvern tíma fyrir langa löngu hafði amma hennar átt svo litla eldavél að hryggurinn passaði ekki inn í heilu lagi.

En aftur að tilboðinu og nú skulum við taka dæmi.

Sigga á eign í sölumeðferð og er ásett verð 49,9 mkr.. Jón skoðaði eignina, leist vel á og gerir tilboð upp á 49,5 mkr. og gildir það í sólarhring.

María skoðaði líka eignina og kemur á skrifstofu fasteignasalans örskömmu eftir að Jón gerði tilboð. Hún er viss um að þetta er drauma eignin, en hún vill alls ekki borga of mikið svo hún spyr fasteignasalann ráða og hvað sé rétt að bjóða í eignina. Hann á jú að gæta til jafns hagsmuna kaupanda og seljanda.

Fasteignasalinn segir þá að það sé komið tilboð.
Hvað er það hátt? - spyr María.
Ég má ekki segja! - segir fasteignasalinn leyndardómsfullur.
HA! Máttu ekki segja? - spyr María frekar hissa, og hvað á ég þá að bjóða í eignina?
Ég má ekki segja!
Jesús, ókei, ég ætla að bjóða 49 milljónir, segir María ákveðin.
Það er ekki nóg!
Ha?? 49,3? - spyr María hikandi.
Neibb,
Hvað þarf ég að fara hátt?
Ég má ekki segja...
--
Þið sjáið hvert þetta stefnir og hvað þetta er í raun hlægilegt. En það sem er kannski alvarlegra þegar fasteignasalar taka niður tilboð í eign sem þeir vita að verður aldrei samþykkt. Bara af því að einhver sagði einhverjum fyrir langa löngu, að upplýsingar um tilboð í eign væru trúnaðarmál.

Spáð í markaðinn