Stutta svarið er já, langa svarið snýst um hvaða fyrirvara ætti seljandi að hafa í gagntilboði.
Við sjáum oft að fasteignasalar merkja eignir á fasteignavefjum “Seld með fyrirvara um fjármögnun”. Það þýðir að kaupandi er ekki búinn að fá lánsloforð og gerir tilboð með fyrirvara um að það fáist. Kaupandi er þá ekki bundinn af tilboðinu ef hann fær ekki fjármögnun og gildir fyrirvarinn oft í allt að 20 daga.
Ef seljandi hefur engann fyrirvara fyrir samþykki sínu á tilboði, þá er eign í raun tekin af markaði á þessu tímabili. Eignin er með öðrum orðum seld, með fyrirvara um fjármögnun og því ekki hægt að bjóða hana öðrum á meðan sá fyrirvari er í gildi.
Þá vaknar spurningin, hver ber tjónið ef kaupandi fellur á fjármögnun?
Seljandi situr þá uppi með tapið. Söluferli seinkar um allt að 20 daga og á þeim tíma hefur seljandi jafnvel misst af öðrum álitlegum kaupendum eða eign sem til stóð að kaupa.
En hver er vörn seljanda?
Jú, seljandi getur líka sett inn fyrirvara og sagt að tilboð sé samþykkt með þeim fyrirvara að ekki komi annað tilboð þar sem fjármögnun er tryggð. Skal sá fyrirvari gilda meðan fyrirvari kaupanda er í gildi.
Þar með getur seljandi áfram leitað tilboða í eignina og tapar ekki dýrmætum tíma í söluferlinu meðan kaupandi tryggir sér fjármögnun.