Procura - meira virði

Hvað kostar 1% vaxtahækkun?

Hvað kostar 1% vaxtahækkun?

Árið 2004 varð mikil breyting á íbúðalánamarkaði þegar útgáfu húsbréfa var hætt og samkeppni jókst með innkomu bankanna.

Vextir á verðtryggðum lánum lækkuðu úr 5,1% í 4,15% og veðsetningarhlutföll hækkuðu. Eðlilega fór íbúðaverð á flug samhliða auknu lánsfé og aukinni veðsetningu og allt fór sem það fór.

En það gleymist þó oft þegar húsnæðisbólunni og fjármálakrísunni 2008 er bölvað, hvað fasteignakaupendum var í raun þröngt sniðinn stakkur allt til ársins 2004 þegar framangreindar breytingar urðu á íbúðalánamarkaði.

Nú, 17 árum síðar veljum við óverðtryggð lán á sömu vöxtum og áður þóttu góðir á verðtryggðum lánum. Meginvextir Seðlabanka Íslands fóru á tímabili undir 1% og hafa verið þar eða lægri í rúmlega eitt ár. Lífið er ljúft.

Hvað svo?

Áður létum við duga að bölva verðtryggingu og sáum höfuðstól lána hækka samhliða verðbólgunni. En þær hækkanir, þó bölvaðar væru höfðu ekki mikil áhrif á raungreiðslubyrði verðtryggðra lána. Það var vegna þess að raunvaxtahækkunin dreyfðist jafn harðan á eftirstandandi lánstíma, sem í staðinn hækkaði höfuðstólinn. Bölvað vesen sem sagt, en þolanlegt.

En hvað gerist með óverðtryggð lán. Ekki hækkar höfuðstóllinn á þeim?

Nei, en þegar Seðlabankinn breytir stýrivöxtum þá hafa þær breytingar strax áhrif á vexti óverðtryggðra lána. Sem að öðru óbreyttu leiðir til hærri greiðslubyrði. Strax.

Tökum dæmi um fjögurra manna fjölskyldu sem keypti íbúð á 60 mkr. og fjármagnaði kaupin með 42 mkr. óverðtryggðu láni til 30 ára á 3,35% breytilegum vöxtum.
Mánaðarleg afborgun er 184.300 kr.

Hvað gerist ef vextir hjá þessari fjölskyldu hækka um bara 1%?
Mánaðarleg afborgun hækkar í 208.200 kr. eða um 23.900 kr. á mánuði.

Ef vextir hækka um 3% þá hækkar afborgunin um 75.900 kr.. Á mánuði!

Komi til þess að Seðlabankinn þurfi að beita stýrivaxtahækkunum, þá munu þær hækkanir bíta fljótt í hjá þeim heimilum sem ekki hafa borð fyrir báru.

Fyrir hvert % sem vextirnir hækka hjá fjölskyldunni hér að framan, þá lækka árlegar ráðstöfunartekjur þeirra um nær 300.000 kr..

Við skulum því vona að agi og stöðugleiki í efnahagsmálum verði meginstefið í komandi kosningum.

Spáð í markaðinn