Procura - meira virði

Siðareglur Procura

Siðareglur Procura

Siðareglum Procura er ætlað að leiðbeina starfsmönnum og öðrum þeim sem starfa að hluta eða heild undir merkjum Procura um eðlileg samskipti við viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila. Reglunum er ætlað að ná til eigenda, stjórnar, starfsmanna, verktaka og annarra samstarfsaðila sem koma fram undir merkjum Procura.

Markmið og tilgangur

Jákvæð framkoma er forsenda jákvæðra viðbragða. Markmið þessara siðareglna er að gera gott fyrirtæki betra og að stjórnendum, starfsfólki og öðrum hagsmunaaðilum, líði vel í daglegum störfum sínum og samskiptum við aðila.

Við lítum á siðareglur þessar sem leiðbeiningar um hvernig við komum fram gagnvart viðskiptavinum okkar og samstarfsaðilum, hvernig við högum samskiptum okkar á milli og almennum störfum með hagsmuni Procura og viðskiptavina okkar að leiðarljósi.

Heiðarleiki, virðing, trúnaður

Við erum heiðarleg í öllum samskiptum og veitum réttar upplýsingar. Við sýnum virðingu í framkomu og samskiptum og eigum jafnframt frumkvæði að uppbyggjandi og jákvæðum samskiptum.

Við virðum afstöðu viðskiptavina okkar sem og aðstöðu þeirra og höldum trúnað. Við nýtum ekki trúnaðarupplýsingar okkur til framdráttar og tilkynnum bæði viðskiptavinum og næsta yfirmanni, ef okkur er ómögulegt, vegna upplýsinga sem við búum yfir, að sinna starfi okkar með hlutlausum hætti.

Við höfum hagsmuni Procura og viðskiptavina okkar ávallt í fyrirrúmi og tilkynnum ef persónulegir hagsmunir okkar skarast við verkefni sem við vinnum að.

Við semjum ekki sjálf við þá sem tengjast okkur fjölskyldu- eða nánum vinaböndum né nýtum við aðstöðu okkar í eigin þágu eða aðila sem tengjast okkur fjölskyldu- eða nánum vinaböndum.

Við nýtum ekki upplýsingar sem við höfum aðgang að í krafti starfa okkar í eigin þágu eða aðila sem tengjast okkur fjölskyldu- eða nánum vinaböndum.

Ábyrgð, fagmennska, frumkvæði

Við veitum ábyrga þjónustu, stöndum við orð okkar og tryggjum að við búum yfir þekkingu sem þjónustan krefst.
Við stundum fagleg vinnubrögð og upplýsum viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila um stöðu mála sem unnið er að.
Við höfum frumkvæði að upplýsingagjöf og höldum samskiptum okkar við viðskiptavini ávallt á faglegum nótum.
Við sýnum sanngirni og stöndum fyrir það sem er rétt, satt og viðeigandi.

Jafnrétti, hugrekki og sjálfstæði

Við stöndum fyrir jafnrétti og virðum samstarfsfólk og viðskiptavini óháð uppruna, trú, lífsskoðunum eða kyni.
Við erum opin fyrir breytingum og lítum á staðnað ástand sem áskorun. Við búum yfir hugrekki til að breyta og leggjum kapp á að breytingar séu forsenda framfara. Við hvetjum til sjálfstæðra vinnubragða en hvikum ekki frá faglegum ferlum.
Við erum umburðalynd, leggjum áherslu á ólík sjónarmið og virðum skoðanir allra en hvikum ekki frá virðingu fyrir samstarfsfólki, viðskiptavinum og Procura.